Augasteinsskipti

Vantar þig ráðgjöf hvaða
sjónlagsaðgerð hentar þér best?

Augasteinsaðgerð

Augasteinsaðgerð er smásjáraðgerð þar sem augasteinninn er mulinn niður inni í auganu með hljóðbylgju og fjarlægður úr hýði sínu gegnum lítið gat á hornhimnunni. Síðan er gerviaugasteinn settur í hýðið utan af “gamla” augasteininum. Skurðina þarf venjulega ekki að sauma. Aðgerðin er gerð í staðdeyfingu og fer sjúklingurinn heim að lokinni aðgerð. Augasteinsaðgerðir eru meðal algengustu aðgerða sem gerðar eru bæði hérlendis sem og erlendis.  Nánari lýsing fylgir að neðan.

Á aðgerðardaginn

Sjúklingur skal fara í sturtu um morguninn og þvo sér um hár. Ekki er nauðsynlegt að fasta fyrir aðgerðina. Boðið er upp á róandi töflu. Sjúklingur fær lyf sem víkka ljósopið og deyfa augað. Þegar inn á skurðstofuna er komið er þrifið í kringum augað með joði. Settur er hlífðardúkur kringum augað og síðan er sett augnsperra sem heldur augnlokunum í sundur meðan á aðgerðinni stendur. Lýst er í augað með sterku ljósi á aðgerðarsmásjánni. Horfa á í ljósið meðan á aðgerðinni stendur, þó sumum reynist það erfitt.

Gerðir eru tveir til þrír litlir skurðir á hornhimnu augans rétt hjá hvítunni. Skurðirnir eru sjálflokandi og þvi þarf venjulega engan saum í aðgerðinni! Síðan er forhólfið fyllt með seigjuefni (viscoelastica).

Búin er til hringlaga opnun í fremri hluta augasteinshýðisins (capsule).

Með sérstöku tæki sem gefur frá sér hljóðbylgjur er kjarni augasteinsins mulinn niður inni í auganu. Mulningurinn er sogaður út jafnóðum með sama tæki. Þegar búið er að fjarlægja kjarna augasteinsins er börkur (cortex) augasteinsins soginn með öðrum áhöldum. Augasteinshýðið er skilið eftir fyrir gerviaugasteininn. Þar næst er framhluti augans fylltur aftur með seigjuefni.

Séð frá hlið

Gerviaugasteininum er oft rúllað upp og þrýst inn í augað og niður í augasteinshýðið gegnum einn af skurðunum með spraututækni. Með þessu móti er hægt að koma gerviaugasteininum sem er 6 mm í þvermál gegnum tæplega 3 mm skurð á hornhimnunni.

Inni í auganu sléttist gerviaugasteinnin út og skorðast fastur í miðju augasteinshýðisins með aðstoð arma sem eru á hliðum gerviaugasteinsins. Síðan er seigjuefnið sogað út og sýklalyf gefið inn í augað. Þá er aðgerðinni lokið!

Á þessari hliðarmynd sést hvar gerviaugasteinninn situr skorðaður í augasteinshýðinu bak við lithimnuna á sama stað og ,,gamli” augasteinninn var.

Eftir aðgerðina

Nauðsynlegt er að hafa hægt um sig fyrsta sólarhringinn eftir aðgerðina. Það má alls ekki nudda augað og forðast að bogra, rembast og lyfta þungu. Það reynist mörgum gott að nota sólgleraugu utanhúss. Verkir eru sjaldgæfir eftir þessa aðgerð.

 

Glákusjúklingar eiga að taka glákudropana sína á sama hátt eftir aðgerðina og þeir hafa gert fyrir aðgerðina. Mikilvægt er þó að byrja á óopnaðri flösku.

 

Fjölfókuslinsur

Sjúklingar sem fá hefðbundna gerviaugasteina fá yfirleitt góða sjón, sérstaklega til að sjá frá sér. Flestir sjúklinganna þurfa þó að nota gleraugu til að sjá vel nálægt sér, t.d. við lestur.

 

Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gerviaugasteina sem eiga það sameiginlegt að gera einstaklinga minna háða gleraugum. Rannsóknir sýna að um það bil 8 af hverjum 9 sjúklingum sem fá þessar tegundir gerviaugasteina þurfa aldrei að nota gleraugu.

 

Þessir gerviaugasteinar eru spennandi valkostur við hefðbundna gerviaugasteina fyrir þá sem eru með ský á augsteini og vilja geta séð sem mest án gleraugna eftir augasteinsaðgerð. Þeir eru ekki síður spennandi kostur fyrir þá sem eru þreyttir á gleraugunum og vilja geta séð bæði nálægt sér og frá sér gleraugnalaust.