Tegundir aðgerða

Hvaða sjónlagsaðgerð hentar þér best?
Það er ekki bara ein leið.

Femto-LASIK hníflaus sjónlagsaðgerð

Femto-LASIK er staðbundin aðgerð framkvæmd með laser sem veldur breytingu á lögun hornhimnu.

Meira öryggi:

Minni líkur á að flipinn sem er gerður á hornhimnu verði of lítill eða að fellingar eða yfirborðsskemmdir myndist. Einnig minni líkur á bólgu eða sýkingu og minni líkur á að til enduraðgerðar komi.

Þynnri flipar:

Minna er gengið á þykkt hornhimnunnar og hún er því sterkari eftir aðgerð. Þetta eykur öryggi til lengdar og minnkar líkurnar á svokallaðri ectasiu, sem er helsta langtímaáhætta slíkra aðgerða þótt mjög sjaldgæf sé.

Aukin nákvæmni:

Femto-tæknin gerir flipa með mun meiri nákvæmni en hefur verið möguleg hingað til. Stærð, lögun og lega flipans er fyrirfram ákveðin og þannig er ekkert sem kemur á óvart.

Betri tækni:

Lasertæknin byggir á mun meiri hraða, en lægri orku. Þetta hlífir hornhimnunni og hefur lágmarksáhrif á vefina í kring. Laserinn er einnig einn sá nákvæmasti á markaðnum.

Þægindi:

Laserinn nýtir soghringi sem minnka þrýsting á augað við sog sem lágmarka óþægindi í þær fáu sekúndur sem meðferðin tekur.

Hvernig virkar Femto-LASIK aðgerðin?

Líkt og í flestum sjónaðgerðum býr tækið til flipa á hornhimnu með laser og breytir svo lögun hornhimnunnar með öðrum laser. Þar með breytist hæfni himnunnar til að brjóta ljós.

 

Hornhimna í nærsýni er gerð flatari til að hún brjóti ljós minna. Hornhimna í fjarsýni er gerð kúptari svo hún brjóti meira ljós.

Myndin lengst til vinstri sýnir fyrsta stig LASIK-aðgerðar sem felst í því að útbúa flipa með Femtosecond Laser.

 

Önnur myndin sýnir augað eftir að flipinn hefur verið gerður. Flipinn er fastur á einum stað á einskonar hjörum og er lagður til hliðar áður en laser-meðferðinni er beitt.

 

Þriðja myndin sýnir hvernig laserinn fjarlægir síðan fyrirfram ákveðna þykkt úr hornhimnunni.

 

Fjórða myndin sýnir hornhimnuna eftir að flipinn hefur verið settur á sinn stað aftur. Flipinn festist sjálfkrafa á hornhimnuna innan fimm mínútna án þess að saumar séu notaðir.

TransPRK hníflaus sjónlagsaðgerð

TransPRK er sjónlagsaðgerð sem byggir eingöngu á notkun lasergeisla. TransPRK hentar sérstaklega vel þegar um minni sjónlagsgalla er að ræða, svo sem við nærsýni og sjónskekkju og ef hornhimnur eru mjög þunnar (1).

TransPRK er háþróuð yfirborðsmeðferð með laser þar sem þekjuvefurinn er fjarlægður með meiri nákvæmni og á jafnari og auðveldari hátt en með hefðbundinni aðferð, þar sem þekjuvefurinn er skrapaður burtu eða leystur upp með alkóhóli.

 

Bataferlið er styttra eftir meðferð með TransPRK en með eldri aðferðum, þar sem hnífur er notaður. Bati í sjón kemur einnig fyrr fram (2).

 

Samanborið við Femto LASIK, þar sem sjón jafnar sig mjög fljótt án nokkurra óþæginda, tekur lengri tíma fyrir sjónina að jafna sig eftir TransPRK. Einnig fylgja TransPRK meiri óþægindi fyrstu tvo sólarhringana. Hins vegar er gengið minna á hornhimnuna í TransPRK-aðgerð en í Femto-LASIK.

 

Gæði sjónar og árangur aðgerðinnar er nákvæmlega sá sami ef miðað er við 4-6 vikur frá aðgerð.

1. Fadlallah A et al. Transepithelial photorefractive keratectomy: Clinical results. J Cataract Refract Surg 2011, Oct;37(10):1852-7.

 

2. Luger MH, Ewering T, Arba-Mosquera S. Consecutive myopia correction with transepithelial versus alcohol-assisted photorefractive keratectomy in contralateral eyes: One-year results. Journal of Cataract & Refractive Surgery 2012, Aug;38(8):1414-23.

PresbyMax

Ný meðferð við ellifjarsýni

Sjónlag hefur um nokkurra ára skeið boðið upp á meðferð við ellifjarsýni með augasteinaskiptum og ísetningu fjölfókus linsa hjá fólki eldra en 45 ára. Árangurinn hefur verið mjög góður. Nú, með tilkomu nýrra lasertækja höfum við möguleika á að leiðrétta ellifjarsýni með s.k. PresbyMax lasermeðferð og nýtist þessi viðbót fyrst og fremst fólki á aldrinum 45-55 ára. Fleiri leiðir til að vinna gegn ellifjarsýni eru færar. Sjónlag leggur áherslu á að skjólstæðingar komi í forskoðun m.t.t. sjónlagsaðgerðar og fái sjón sína metna ásamt því að útlista sínar þarfir og kröfur til sjónar.

 

Í framhaldi gerum við áætlun og ráðleggjum hvaða meðferð myndi henta þér best.